Engir fjármunir hafa enn skilað sér til Orkuveitu Reykjavíkur (OR) vegna sölu á Magma-bréfinu svokallaða og sölu á höfuðstöðvum fyrirtækisins í Reykjavík. Ástæðan er sú að kaupendum hefur ekki lokið við fjármögnun viðskiptanna. Ætlað söluandvirði eigna OR nemur samtals 13,7 milljörðum króna. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir í samtali við VB.is þetta sérkennilega stöðu. Samningum hafi þó ekki verið slitið.

Magma-bréfið

Borgaráð staðfesti í júlí samþykkt stjórnar OR frá í júní að selja Magma-skuldabréfið svokallaða, sem var gefið út af Magma Energy Sweden A/B árið 2000 og er með veði í tæpum 25% hlut Magma í HS Orku. Tilboð í bréfið var frá sjóði Landsbréfa, dótturfélagi Landsbankans, upp á 8,6 milljarða króna. Í tilboðinu var fyrirvari um endanlega fjármögnun. Samkvæmt tilboðinu átti að ganga frá fjármögnun kaupanna fyrir 30. ágúst síðastliðinn. Það gekk ekki eftir. Forstjóri OR frestinn hafa verið framlengdan út september.

Höfuðstöðvarnar óseldar

Þá hefur Straumur fjárfestingarbanki ekki heldur lokið við fjármögnun sjóðs sem ætlað er að kaupa höfuðstöðvar OR og hefur salan því ekki gengið í gegn. Straumur bauð 5,1 milljarð króna í húsið í nafni óstofnaðs félags í byrjun árs og var stefnt að því að klára söluna á fyrsta ársfjórðungi. Viðskiptablaðið greindi frá því í ágúst að viðskiptin væru á lokametrunum og reiknað með því að fjármögnun myndi ljúka á næstu vikum.