Í dag var undirritaður samningur þess efnis að Orkuveita Reykjavíkur verði einn helsti stuðningsaðili alþjóðlegu jarðhitaráðstefnunnar IGC 2016, sem haldin verður hér á landi í apríl 2016.

Iceland Geothermal Conference 2016 er alþjóðleg ráðstefna um jarðvarma. Ráðstefnan er haldin í nafni Iceland Geothermal klasasamstarfsins en það er fyrirtækið Gekon sem ber ábyrgð á framkvæmdinni. Yfirskrift ráðstefnunnar er „fjölnýting jarðvarmans.“ Ráðstefnan var fyrst haldin í Hörpu í fyrra og þá tóku 600 manns frá 40 löndum þátt.

Orkuveitan var einnig helsti bakhjarl ráðstefnunnar 2013. Í tilkynningu er haft eftir Rósbjörgu Jónsdóttur ráðstefnustjóra að mikill fengur sé í Orkuveitunni sem bakhjarli. Orkuveitan sé stærsta jarðhitafyrirtæki í heimi og það geri aðstandendum ráðstefnunnar auðveldara fyrir að höfða til þeirra sem ráðstefnan á erindi við.

Hildigunnur H. Thorsteinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Orkuveitunnar, segir jafnframt mikilvægt fyrir jarðvarmaiðnaðinn hér á landi að reglulega séu viðburðir af þessari stærð.