Æðstu menn Orkuveitu Reykjavíkur hafa á undanförnu fundað á erlendri grundu með erlendum lánardrottnum félagsins í því skyni að kynna stöðu félagsins í ljósi þeirra breytinga og hagræðingaraðgerða sem gerðar hafa verið á rekstri félagsins vegna bágrar stöðu þess. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir í samtali við Morgunblaðið að einnig hafi verið haldnir fundir með hugsanlegum framtíðar lánardrottnum en markmið ferðarinnar hafi þó ekki verið fjármögnun.

Bjarni segir viðbrögð erlendu fjármálafyrirtækjanna heilt yfir hafa verið mjög jákvæð en ekki hafi verið rætt um hvort lengja þyrfti í lánum.