Matsfyrirtækið Reitun hefur breytt horfum í lánshæfismati á Orkuveitu Reykjavíkur úr stöðugum í jákvæðar. Matseinkunnin er þó áfram i.AA3. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu .

Þar segir meðal annars: „Planinu, aðgerðaráætlun vegna fjárhagsvanda OR 2011 – 2016 er lokið og árangurinn er umtalsvert betri en þau markmið sem sett voru. Stjórnendur hafa undanfarin ár náð miklum árangri í að byggja upp fjárhagslegan styrk Orkuveitunnar. Dregið hefur úr skuldsetningu og markaðsáhættu, fyrirtækið starfar í talsvert betra rekstrarumhverfi og fjárhagskennitölur hafa batnað til muna.“

Einnig kemur þar fram að til að bæta lánshæfi fyrirtækisins enn frekar þurfi OR að halda áfram á sömu braut, þ.e. að lækka skuldir, draga úr markaðsáhættu og styrkja lausafjárstöðuna. Standa þurfi við þau arðgreiðsluskilyrði sem fyrirtæki hefur sett sér og tryggja áframhaldandi aðgengi að fjármálamörkuðum.