Til greina kemur að áfrýja þeirri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála að Orkuveita Reykjavíkur megi ekki eiga meira en 3% af heildarhlutafé í Hitaveitu Suðurnesja, að sögn Hjörleifs Kvaran, forstjóra OR. Málið var á dagskrá stjórnar OR fyrir helgi og var ákveðið að fara betur yfir málið. OR hefur fjórar vikur til að áfrýja.

Hjörleifur segir að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins hafi komið mjög á óvart. „Hún gengur mun lengra en ég hefði talið nauðsynlegt. Þegar stjórnvöld er að taka svona ákvarðanir verður að gæta meðalhófs," segir hann. „Mér sýnist að það sé gengið ansi hart fram í þessu máli."

Í ákvörðun sinni kemst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að eignarhald OR á stórum hlut í HS, öflugum keppinauti sínu, eins og segir í niðurstöðunni, myndi hafa skaðleg áhrif á samkeppni. Samkeppniseftirlitið mælir því fyrir um að OR selji af eignarhluti sínum þannig að félagið eigi ekki meira en 3% af heildarhlutafé í HS.