Samningar hafa verið undirritaðir um kaup Orkuveitu Reykjavíkur á Hitaveitu Rangæinga. Hitakostnaður heimila á Hellu og Hvolsvelli mun lækka um 20-30% á næstu tveimur árum og ljósleiðari verður lagður um þorpin.
Hitaveita Rangæinga var í eigu þriggja sveitarfélaga, Rangárþings ytra (Hella, Þykkvibær og sveitir), Rangárþings eystra (Hvolsvöllur og sveitir) og Ásahrepps, sem er sveitahreppur sem liggur niður með Þjórsá.

Verðmæti hitaveitunnar var metið liðlega 860 milljónir króna en þegar búið var að draga frá skuldir og taka tillit til lækkunar á gjaldskrá fengu sveitarfélögin um 120 milljóna króna greiðslu við söluna.

Hitaveitan hefur frá upphafi virkjað borholur að Laugalandi fyrir dreifikerfi sitt. Á árinu 2000 var virkjuð borhola að Kaldárholti í Holtum sem hefur stórbætt rekstrarstöðu og afhendingaröryggi veitunnar. Hitaveitan hefur séð Laugalandi, Hellu, Hvolsvelli, Rauðalæk og byggðum meðfram stofnæð veitunnar frá Laugalandi fyrir heitu neysluvatni. Síðustu árin hafa bæst við sumarbústaðahverfi í Holtum og býli í Ásahreppi. Eftir jarðskjálftana árið 2000 hefur hitaveitan staðið í miklum framkvæmdum við endurnýjun stofnlagnar frá Laugalandi að Hvolsvelli og nýbyggingu fyrir dælu- og stjórnstöð að Laugalandi í stað eldri byggingar þar sem skemmdist í skjálftunum. Á árinu 2003 var lögð hitaveitulögn í Gunnarsholt og fyrirhugað er að tengja sumarhúsabyggð meðfram Hróarslæk við hana.

Samningurinn hefur verið staðfestur af sveitarstjórnum, stjórn OR og Iðnaðar og Viðskiptaráðuneytinu og voru samningar undirritaður að Laugalandi á þriðjudaginn 25. janúar 2005. Orkuveitan tekur við rekstrinum miðað við síðastliðin áramót.