Orkuveita Reykjavíkur (OR) keypti vorið 2008 fimm túrbínur fyrir 25 milljarða króna frá Japan sem ætlar var að nota í virkjanaframkvæmdir. Tvær voru settar í Hellisheiðarvirkjun en þrjár eru enn í Japan. Verðmæti þeirra nemur 15 milljörðum króna. I fyrra greiddi OR þrjá milljarða króna til að losna undan skuldbindingum vegna kaupa á túrbínunur þremur.

Fjallað er um málið í Fréttatímanum í dag. Þar segir m.a. að fjórar túrbínur átti að nota í virkjanir í Hverahlíð og Bitru sem sjá áttu nýju álveri í Helguvík fyrir rafmagni og ein til viðbótar var keypt án þess að ákveðið hefði verið hvar ætti að nota hana.

Ein túrbína þeirrar gerðar sem OR keypti kostar fimm milljarða króna.

Í blaðinu segir að á undanförnum árum hafi stjórnendur OR átt marga fundi með fulltrúum japanska fyrirtækisins sem framleiðir túrbínurnar, bæði hér á landi, í Þýskalandi og í Japan. Í fyrra tókst svo að semja um frestun á staðfestingu á afhendingu tveggja túrbína til 1. júní 2016 sem þýddi að þær komi til afhendingar á árinu 2019 og skuldbindingunni var aflétt. Þá tókst að semja um afpöntun á þriðju túrbínunni. Kostnaður vegna þessa nemur þremur milljörðum króna.