Orkuveita Reykjavíkur hefur fengið afgreitt lán sem dregist hafði að borga út síðan í haust. Um er að ræða hluta af láni úr lánalínu frá Þróunarbanka Evrópu en þeir tóku þátt í að fjármagna byggingu Hellisheiðarvirkjunar.

Að sögn Hjörleifs Kvaran, forstjóra Orkuveitunnar, skapar þetta félaginu tækifæri til þess að ráðast í framkvæmdir á ný.

„Eins og málin blasa við núna munum við fara í stækkun á Hellisheiðarvirkjun en fresta enn um sinn byggingu Hverahlíðarvirkjunar. Í hana verður ekki farið fyrr en lán frá Fjárfestingabanka Evrópu er í höfn en þaðan höfðum við lánsloforð upp á 22 milljarða króna sem á eftir að ganga frá.“

Að sögn Hjörleifs verður ráðist sem fyrst í að bjóða út verkið.

„Nú er verið að lesa yfir útboðsgögnin og þau ættu að verða tilbúin mjög fljótlega,“ sagði Hjörleifur.

Verkið þarf að bjóða út á Evrópska efnahagssvæðinu og því liggur á að koma gögnunum út svo fljótt sem verða má.

„Það er smá innspýting í efnahagslífið að koma því af stað.“