Orkuveita Reykjavíkur hefur sett í innheimtu 760 milljónir króna sem fyrirtækið telur sig eiga hjá Norðuráli vegna samnings um raforkukaup. Aðgerðin tengist ágreiningi sem verið hefur um hvort Norðurál hafi mátt minnka innkaup á rafmagni frá Orkuveitunni og HS Orku. Frá þessu er greint á ruv.is.

Þar segir að málið snúist um samning sem Norðurál gerði við HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur um kaup á raforku til álveranna á Grundartanga og í Helguvík. Þar sem framkvæmdum við Helguvík hefur seinkað nýtti Norðurál aðeins hluta þeirrar orku sem samið var um. Töldu þeir sér það heimilt vegna sérstaks skerðingarákvæðis í samningnum.

Málið fór fyrir gerðardóm sem í maí 2012 úrskurðaði að Norðuráli hafi verið óheimilt að skerða þessi kaup. Síðan þá hafa staðið yfir samningaviðræður milli Norðuráls og HS Orku um hvernig túlka eigi dóminn. Um það hefur ekki náðst samkomulag enn. Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti síðan í lok síðasta mánaðar að setja þessa skerðingu, sem hljóðar upp á 760 milljónir króna, í innheimtu.