Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, segir að þingmenn hreyfingarinnar hafi í nógu öðru að snúast en að óska eftir því að hulunni verði svipt af leynigögnum sem fylgja Icesave-samningunum.

Hann sagði þó að í þeim kæmi fram að samninganefndinni hefði orðið á í messunni.

Leynigögnin sem um ræðir eru 24 eftir því sem næst verður komist og eru geymd í lokuðu herbergi Alþingis. Þingmenn hafa þar fengið heimild til að fá aðgang að þeim. Þau hafa hins vegar ekki verið birt almenningi.

Þegar blaðamaður Viðskiptablaðsins innti Þór eftir því hvort Borgarahreyfingin myndi beita sér fyrir því að þau yrðu gerð opinber sagði hann að hreyfingin hefði í nógu öðru að snúast. Það væri auk þess hlutverk fjölmiðlamanna að gera þau opinber.

Þegar blaðamaður Viðskiptablaðsins bað hann um að skýra þessa afstöðu sína nánar brást hann við með því að skella á.