Eins og Viðskiptskiptablaðið sagði frá í gærkvöldi hefur komið í ljós að neysluvatn víða í höfuðborginni innihaldi jarðvegsbakteríur yfir viðmiðunarmörkum. Nú er ljóst að það á við víðar en upphaflega var tilkynnt, það er einnig á Kjalarnesi og Grafarvogi utan Húsahverfis.

Leggur Heilbirgðiseftirlit Reykjavíkur til að neysluvatn sé soðið, sérstaklega fyrir þá sem eru viðkvæmir fyrir, eða með lélegt ónæmiskerfi, ungabörn, aldraðir og fólk með undirliggjandi sjúkdóma.

Í listanum sem Veitur ehf., dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur sendu frá sér kemur fram að þetta eigi við í öllum hverfum borgarinnar nema Grafarvog, Norðlingaholti, Úlfarsdal og Kjalarnesi.

Nú er hins vegar ljóst að það er ekki alls kostar rétt, og mestallur Grafarvogur, það er utan Húsahverfis, og Kjalarnes eru ekki undanskilin.

Hér fer nýja yfirlýsingin í heild sinni:

Í fréttatilkynningu Veitna frá því fyrr í kvöld urðu þau mistök að listi yfir hverfi sem fá vatn úr þeim hluta veitukerfisins þar sem mældist aukinn fjöldi jarðvegsgerla var ekki kórréttur. Hér er réttur listi: Öll hverfi Reykjavíkur vestan Elliðaáa auk Bryggjuhverfis, Grafarvogs utan Húsahverfis, Ártúnshöfða, Kjalarnes sem og Seltjarnarnes.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur gefið út að engin hætta sé á ferðum. Þó er áfram, af varúðarástæðum, mælt með að íbúar ofantalinna hverfa sjóði vatn ef neytendur eru viðkvæmir.