Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvá hyggst láta af störfum hjá félaginu en Þór tilkynnti starfsfólki Sjóvá þessa ákvörðun sína rétt í þessu.

Þór segir í samtali við Viðskiptablaðið að uppsögn hans komi til að eigin frumkvæði. Hann segir að samstarfið við Skilanefnd Glitnis (sem nú fer með rekstur félagsins) hafi verið gott og hann sé ánægður með störf sín innan Sjóvá.

„Hjá Sjóvá starfar mikið af góðu og traustu fólki og á því byggir félagið. Það er búið að ganga þannig frá hnútunum að félagið heldur velli og vátryggingareksturinn er mjög góður. Því er fyrst og fremst að þakka þessu góða starfsfólki,“ segir Þór.

Þór segir að hann muni nú fyrst um sinn einbeita sér að störfum sínum í forystu Samtaka atvinnulífisins (SA) en jafnframt muni hann starfa með nýjum forstjóra Sjóvá, svo lengi sem þess gerist þörf.

„Ég hef haft mikið á minni könnun undanfarin misseri og verið með verkefni upp fyrir haus,“ segir Þór sem jafnframt er formaður Samtaka atvinnulífsins og var, þangað til snemma á þessu ári, stjórnarformaður Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins.

„Það hefur verið mikið starf unnið þar [hjá SA] síðasta árið sem kunnugt er og þannig verður það áfram næstu misseri,“ segir Þór.