Samtök atvinnulífsins höfðu varað við afleiðingum þeirra ákvarðana sem stjórnvöld tóku um gjaldeyrishöft, vaxtapólitík og ríkisbanka. Það var ekki hlustað. Nú viljum við að hlustað verði á aðvörunarorð okkar um ýmsar aðgerðir sem fyrirhugaðar eru.

Þetta sagði Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) í ræðu sinni á aðalfundi SA sem nú stendur yfir.

Þó sagði að í fyrsta lagi væru hugmyndir um skattahækkanir mjög varasamar, enda muni þær kalla á meiri vanskil og draga kjark úr fólki, „ekki síst unga fólkinu sem vill vinna meira til að koma sér út úr skuldafeni,“ sagði Þór í ræðu sinni.

„Mikilvægast er að gefa atvinnulífinu kost á því að auka verðmæti og greiða þannig meiri skatta. Við eigum fremur að horfa strax til þess að fækka skattundanþágum og hvetja til fjárfestinga til lengri tíma í skattkerfinu í stað þess að hækka hlutföll,“ sagði Þór.

Vara við hugmyndum um eignarhaldsfélag ríkisins

Þá sagði Þór að í öðru lagi eigi að varast hugmyndir um eignarhaldsfélag ríkisins. Hann hvatti fremur til þess að bankarnir sjálfir og eignarhaldsfélög þeirra yrðu nýttir og til að taka á vandræðum fyrirtækja og leysa þau.

„Höldum þekkingunni í bönkunum, þar þekkja sérfræðingar fyrirtækin og hafa unnið með þeim. Höfum að meginmarkmiði að fyrirtæki sem lenda í vandræðum komist sem fyrst aftur á frjálsan markað,“ sagði Þór.

Aðgerðaleysi í ríkisfjármálaum áhyggjuefni

Að lokum sagði Þór að aðgerðaleysið í ríkisfjármálum væri áhyggjuefni. Miklu skipti að ríkisfjármálin verði tekin föstum tökum á næstu fjárlagaárum og ekki síst fyrir árið 2010.

„Við erum því miður þegar að missa dýrmæt tækifæri á hverjum degi; stjórnkerfið sinnir ekki fjárlagaundirbúningi heldur bíða allir eftir nýrri stjórn,“ sagði Þór.

„Við megum engan tíma missa. Það þarf að fækka ráðuneytum og auka stjórnunarþekkingu í þeim. Og það þarf pólitískan kjark til þess að fækka stofnunum, auka útboð, koma á samkeppni og draga úr þeirri þjónustu sem ekki getur talist eðlilegur partur af því velferðarkerfi sem við viljum hlúa að. Við þurfum nýskipan í ríkisrekstri. Atvinnulífið er reiðubúið til þess að koma að þeirri vinnu af krafti.“