Þór Sigfússon, nýr stjórnarformaður Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, 24 stunda og mbl.is, segir að hann komi inn í stjórnina fyrst og fremst sem rekstrarmaður. Megin verkefnið sé að ná almennilegum tökum á rekstrinum.

„Björgólfur bað mig um að taka þetta að mér en ég sit þarna í sátt við alla eigendur Árvakurs,“ segir hann í samtali við helgarblað Viðskiptablaðsins. Björgólfur Guðmundsson kaupsýslumaður á meira en helmingshlut í Árvakri.

Þór segir að rekstur félagsins hafi batnað mjög í tíð Einars Sigurðssonar forstjóra, en Einar var ráðinn til Árvakurs í ágúst 2006. EBITA viðsnúningur varð á rekstrinum á síðasta ári. Hagnaður fyrir skatta og fjármagnsliði nam þá 151 milljón króna samanborið við 84 milljóna króna tap árið áður. „Árið í ár byrjaði vel en auðvitað finnum við fyrir samdrætti í auglýsingum,“ segir Þór.

Þór segist þó líta mjög björtum augum á starfsemina. „Fyrirtækið ætlar að verða öflugasta prent- og netmiðlafyrirtæki landsins. Það hefur á að skipa geysilega öflugu fólki, öflugum forstjóra og nýrri kynslóð ritstjóra með ferskar hugmyndir.“

Tóku til í rekstri Sjóvár í góðærinu

Þór fjallar einnig í viðtalinu um störf sín sem forstjóri Sjóvár og formaður Samtaka atvinnulífsins. Hann segir að rekstur Sjóvár gangi mjög vel. Markaðshlutdeild Sjóvar hefur verið á bilinu 31 til 33%. „Við höfum örlítið misst markaðshlutdeild á síðustu tveimur árum en það var vegna þess að við tókum ákvörðun viku eftir að ég kom til starfa að koma þessum rekstri af alvöru í lag á átján mánuðum,“ segir hann en hann varð forstjóri Sjóvar í lok árs 2005. „Við tókum til í rekstrinum í góðærinu. Það er kostur núna, því ekki væri gott að þurfa nú að hækka iðgjöld.“

Inntur álits á vaxtahækkunum Seðlabankans segir hann að nú sé að koma í ljós að varnaðarorð Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA, hafi verið tímabær. „Samhljómur er um það í viðskiptalífinu að núverandi ástand er algjörlega óásættanlegt. Þetta er vítahringur,“ segir hann meðal annars.

Hann segir að ef Seðlabankinn muni fljótlega hefja stýrivaxtalækkun, laga ambögur í bókhaldi sínu og kannski aðeins hleypa fleiri nýjum hugsunum að þá komist hann aftur á beinu brautina.

_____________________________________

Nánar er rætt við Þór Sigfússon í helgarblaði Viðskiptablaðinu á morgun.

Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .