Innan Samtaka atvinnulífsins eru skiptar skoðanir um aðild að Evrópusambandinu. Fyrir liggur að aðildarfélög með 60% atkvæðavægi í samtökunum hafa ályktað um að sækja beri um aðild að sambandinu en samtök sjávarútvegsins eru því andvíg.

Þetta sagði Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins (SA) í ræðu sinni á aðalfundi SA sem nú stendur yfir.

Þór sagði að í kjölfar mikillar ESB umræðu innan samtakanna síðast liðið haust og skoðanakönnunar meðal félagsmanna hafi stjórn samtakanna tekið þá ákvörðun að SA myndu ekki beita sér fyrir aðild Íslands að ESB og upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi. Hins vegar væri mikilvægt að SA væri virkur þátttakandi í Evrópu-umræðunni.

„Almennu sjónarmiðin lúta að því að með íslensku krónunni sé borin von til þess að hér myndist þau starfsskilyrði fyrir atvinnulíf sem nauðsynleg eru til þess að atvinnulífið vaxi og dafni,“ sagði Þór.

„Þessi almennu skilyrði snúa að vaxtastigi, verðbólgu og launabreytingum sem hafa verið margfalt hærri hér á landi en í viðskiptalöndunum á undanförnum árum og áratugum. Slík skilyrði hamli gegn nauðsynlegum fjárfestingum, innlendum sem erlendum, og takmarki erlenda samkeppni. Að auki stuðli sjálfstæður gjaldmiðill að agalausri hagstjórn. Gegn þessum almennu sjónarmiðum fyrir aðild eru þau rök að með aðild afsali Íslendingar sér forræði yfir sjávarútvegsauðlindinni, tapi hlutdeild í sameiginlegum flökkustofnum og að fjárfestingar útlendinga geti leitt til þess að arðurinn af sjávarútveginum hverfi úr landi. Aðild feli einnig í sér að tollvernd innlendrar landbúnaðarframleiðslu gagnvart samkeppnisvörum framleiddum í ESB félli niður sem myndi draga úr framleiðslu og sumar greinar landbúnaðar legðust af.“

Þó sagði niðurstöðu umræðunnar vera þrátefli. Hins vegar kæmumst við ekki undan því að finna leiðir til að verða hluti af stærra gjaldmiðilssvæði.

„Nærtækasti kosturinn er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og láta reyna á hvert við komumst í slíkum viðræðum með sjálfsforræði í auðlindamálum okkar,“ sagði Þór.

„Það er hins vegar deginum ljósara að mínu mati að ef á einhverja mun halla í samningum við ESB þá er það sjávarútvegur og landbúnaður. Spurningin er hvort aðrir hagsmunir vegi þyngra en þeir hagsmunir þegar upp er staðið. Það getum við aðeins áttað okkur á með viðræðum um aðild. Ef við metum það svo að ekki sé nægilega komið til móts við kröfur okkar þá verður einfaldlega engin samningsniðurstaða og ef samningar nást en þjóðin metur það svo að hann sé ófullnægjandi þá verður ekki af aðild. En hagsmunir þjóðarinnar af því að fá úr því skorið hvort við eigum kost á ásættanlegri lausn eru svo brýnir að óbreytt ástand er ekki viðunandi.“