Þór Sigfússon, fyrrverandi forstjóri Sjóvár, staðfestir í samtali við Viðskipablaðið að starfsmenn sérstaks saksóknara hafi gert húsleit á heimili sínu fyrr í dag þar sem þeir hafi lagt hald á tölvu.

„Ég hef staðið heiðarlega að öllu því sem ég hef tekið mér fyrir hendur og öll mín verk þola skoðun," segir hann. „Þess vegna er ég ánægður að fá þessa skoðun í gang."

Hann segist ekki vita til þess að neitt ólöglegt hafi farið fram.

Starfsmenn sérstaks saksóknara gerðu einnig húsleitir í höfuðstöðvum Sjóvár og Milestone. Eftir því sem næst verður komist var sömuleiðis leitað á heimilum eigenda og stjórnenda Milestone.

Aðgerðirnar tengjast máli sem Fjármálaeftirlitið vísaði til sérstaks saksóknara fyrr á árinu. Það varðar m.a. fjárfestingar erlendis, svo sem kaupin á Moderna Finance AB í Svíþjóð.