Orkuveita Reykjavíkur (OR) hagnaðist um rúma 3,7 milljarða króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta er talsverður bati á milli ára en á fyrri hluta síðasta árs tapaði OR 924 milljónum króna.

Í uppgjöri OR kemur fram að rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) fyrri hluta ársins nam 8,9 milljörðum króna en var 8,1 milljarður á sama tíma í fyrra. Í uppgjörinu segir að aðhald í rekstri er enn að skila lækkuðum kostnaði við rekstur þess og hafa launakostnaður og annar rekstrarkostnaður lækkað um 173 milljónir á milli ára. Ytri þættir hafi ýmist verið hagstæðir eða óhagstæðir á tímabilinu. Áhættuvarnir hafa skilað auknum stöðugleika í afkomu Orkuveitunnar.

Þá nam framlegð reksturs samstæðu OR 13,4 milljörðum króna en var 12,7 milljarðar í fyrra. Ytri áhrifaþættir á afkomu fyrirtækisins – gengi, álverð og vaxtastig – hafa þróast hvert með sínum hætti, að því er segir í uppgjörinu. Þá var gengisþróun hagstæð fyrir OR á móti mjög lágu álverði sem hafði neikvæð áhrif á fjármagnsliði uppgjörsins.