*

sunnudagur, 17. janúar 2021
Innlent 7. október 2017 11:30

OR skoðar að kaupa höfuðstöðvarnar aftur

OR seldi höfuðstöðvarnar 2013 en leigir þær aftur.

Ritstjórn
Höfuðstöðvarnar hafa reynst Orkuveitu Reykjavíkur dýrar.
Haraldur Guðjónsson

Orkuveita Reykjavíkur er með til skoðunar að kaupa aftur höfuðstöðvar félagsins. Þetta var meðal hugmynda sem Ingvar Stefánsson, fjármálastjóri fyrirtækisins, kynnti á stjórnarfundi OR þann 24. ágúst að því er fram kemur í Fréttablaðinu. Degi síðar tilkynnti Orkuveitan á blaðamannafundi að húsið væri afar illa farið vegna rakaskemmda og myndi kosta milljarða að gera við.

Orkuveitan seldi höfuðstöðvarnar árið 2013 á 5,1 milljarð króna til Foss fasteignafélags slhf. sem stofnað var sérstaklega utan um húsnæði Orkuveitunnar og er að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóða. Orkuveitan leigði síðan höfuðstöðvarnar svo af Fossi til 20 ára en er engu síður skuldbundin til að sjá um viðhald þeirra. Salan var hluti af Planinu svokallaða sem unnið var til að bæta fjárhag Orkuveitu Reykjavíkur. 

„Í lausnunum felst að við erum ekki að fara að gera mikið fyrir hús sem við eigum ekki. Því höfum við varpað því fram hvort skynsamlegt sé að kaupa húsið en þetta er algjörlega á hugmyndastigi enn þá,“ er haft eftir Ingvari í Fréttablaðinu, sem áætlar að það gæti kostað um 5,5 milljarða að kaupa húsið aftur.