Reglur um hlutverk eigenda Orkuveitunnar og verkaskipting milli þeirra, stjórnar og stjórnenda eru óljósar. Því er mikilvægt að eigendur móti sér stefnu um verkaskiptingu og hlutverk eigenda og ábyrgð og vald stjórnar og stjórnenda fyrirtækisins, upplýsingamiðlun, fyrirkomulag eftirlits o.s.frv.

Þetta kemur fram í skýrslu úttektarnefndar um starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur. Rannsókn nefndarinnar tekur til áranna 2002 til loka árs 2010.

Þá segir nefndin stjórn félagsins hafi  verið vettvangur pólitískra átaka í borgarstjórn Reykjavíkur. Ekki virðist hafa verið reynt að ná samstöðu um mikilvæg mál og að sjaldgæft sé að stefnumótun af hálfu stjórnar hafi leitt til sameiginlegrar niðurstöðu.

„Þá virðast stjórnmálamenn hafa flutt með sér þá umræðuhefð sem tíðkast í borgarstjórn og borgarráðum, og myndað skýran minnihluta og meirihluta stjórnar, sem er óhefðbundið í rekstri fyrirtækja. Nægir hér að líta til þeirra óvenjulegu og umfangsmiklu bókana sem gerðar hafa verið á fundum stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur á umliðnum árum og þeirrar tortryggni sem virðist hafa gætt milli meirihluta og minnihluta stjórnar um einstakar ákvarðanir [...], segir í skýrslu úttektanefndarinnar.

„Þessir starfshættir stjórnar veiktu stöðu hennar gagnvart forstjóra og gaf honum og öðrum stjórnendum mikið svigrúm til sjálfstæðra stefnumótandi ákvarðana. Eftirlitshlutverk stjórnar var takmarkað og oft í reynd aðeins formlegt og þá eftirá. Sum viðamikil mál voru borin undir stjórn með afar skömmum fyrirvara, svo sem samningur um kaup Orkuveitu Reykjavíkur á hlut forkaupsréttarhafa í Hitaveitu Suðurnesja og samningur við Og Fjarskipti hf.“

Þá segir nefndin að dæmi séu um að stjórnendur fyrirtækisins hafi gert samninga svo sem um uppkaup á veitum án þess að leggja þá fyrir stjórn eða eigendur til staðfestingar.

„Af þessum ástæðum og vegna mikilvægis skýrrar verkaskiptingar þessara lykilaðila og hæfni þeirrar stjórnar sem stýrir Orkuveitunni hverju sinni hníga veigamikil rök að því að stjórn sé eingöngu skipuð öðrum en kjörnum fulltrúum sveitarfélaga, fólki sem hefur reynslu og/eða þekkingu á málefnasviðum fyrirtækisins og rekstri,“ segir í skýrslu nefndarinnar.

Engar gengisvarnir

Í skýrslunni segir þó að Orkuveitan sé fyrirtæki sem að mati úttektarnefndarinnar sé að mörgu leyti til fyrirmyndar í stjórnun og rekstri. Er þar vísað til þess að fá fyrirtæki á Íslandi hafi fengið jafn margar vottanir sem lúta að gæðum og verkferlum.

„Þrátt fyrir þetta má greina brotalamir í ákvarðanatöku stjórnenda á úttektartímabilinu,“ segir í skýrslunni.

„Stefnumótandi ákvarðanir virðast á stundum hafa verið illa undirbúnar og mikils hraða gætt við ákvarðanatöku. Þannig hefur verið misbrestur við áhættustýringu fyrirtækisins. Að áliti úttektarnefndarinnar má rekja það til nokkurra samverkandi ástæðna, en sérstaka athygli vekur að stjórnendur, sem hluta af skuldastýringu fyrirtækisins, tóku ákvörðun um að verja fyrirtækið ekki fyrir gengisáhættu án þess að fyrir þeirri ákvörðun lægi ítarleg greining á mögulegum áhrifum þessa til lengri tíma litið. Þar með var tekin áhætta, sem að mati úttektarnefndarinnar eigi ekki að viðgangast í fyrirtæki sem er í almannaeigu.“