Hæstiréttur sýknaði í vikunni Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Veitur af kröfu landeigenda í Rangárþingi Ytra en ágreiningur málsins laut að nýtingu jarðhita í eign þeirra.

Landeigendurnir kröfðust þess annars vegar að samkomulag, sem gert var árið 1998 um nýtingu vatnsins, væri tímabundinn til 25 ára og að OR og Veitum yrði gert að víkja af jörðinni eftir það tímamark. Í öðru lagi var þess krafist að fyrirtækjunum yrði gert að greiða fyrir umframnotkun á vatni árin 2012-2016.

Jarðeigendur töldu að fyrrgreint samkomulag væri tímabundið og að aðeins væri heimilt að nýta 5.256 rúmmetra af vatni á ári hverju. Árin 2012-2016 hafi hins vegar 9,3 milljón rúmmetrum umfram það verið dælt upp úr holunum á jörðinni. Kröfðust þau greiðslu vegna þess en dómkvaddur matsmaður mat virði vatnsins um 830 milljónir á verðlagi ársins 1998 en 1,2 milljarða á markaðsverði áranna 2012-2016.

Þegar samið var um nýtingu vatnsins fengu landeigendur tæplega fimm milljónir fyrir. Fimm árum síðar bættust síðan 600 þúsund krónur við þá upphæð.

Í dómi Hæstaréttar kom fram að fráleitt væri að Hitaveita Rangæinga hefði gert tímabundið samkomulag um nýtingu vatnshitans en OR og Veitur tóku stöðu félagsins á fyrsta áratug þessarar aldar. Þá var því einnig hafnað að hámarksnýting á ári hefði verið 5.256 rúmmetrar enda hefði það magn aðeins nægt til að hita upp tíu sumarhús. Umrætt viðmið hefði aðeins verið í samningnum til að ákvarða endurgjald fyrir hann. Félögin voru því sýknuð af aðalkröfu landeigenda.

Hið sama gilti um varakröfur þeirra en þær lutu að því að breyta ákveðnum greinum hans þannig að hann heimilaði aðeins nýtingu á 5.256 rúmmetrum af vatni á ári. Þeirri kröfu var einnig hafnað.

„Síðari varakrafa [landeigenda] beinist ekki að því að fá endurskoðuð ákvæði samningsins um endurgjald fyrir jarðhitaréttindin með tilliti til nýtingar þeirra í framtíðinni, hvort heldur vegna þess að umfang jarðhitans hafi reynst meira en fyrirséð hafi verið eða að ósanngjarnt mætti telja að útreikningur á eingreiðsluverðmæti endurgjalds til jarðeigenda hafi tekið mið af 25 ára tímabili. Verður því einnig að staðfesta ákvæði hins áfrýjaða dóms um sýknu stefndu af síðari varakröfu áfrýjenda en sú niðurstaða stendur því ekki í vegi að áfrýjendur gætu í öðru máli leitað úrlausnar um hvort skilyrði væru til að víkja til hliðar og breyta samningnum frá 6. nóvember 1998 að framangreindu leyti,“ segir í niðurlagi dómsins.