Orkuveita Reykjavíkur tapaði 1.756 milljónum króna árið 2006 en árið áður hagnaðist félagið um 3.304 milljónir króna. Helsta skýring á þessum mun er gengistap vegna langtímaskulda, samtals 8.141 milljónir króna, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Rekstrarreikningur Orkuveitu Reykjavíkur sýndi hagnað fyrir fjármagnsliði og skatta upp á 3.963 milljónir samanborið við 3.304 milljóna króna hagnað árið 2005.

Rekstrartekjur ársins 2006 námu um 18.101 milljón króna en voru um 14.728 milljónir árið 2005. Helstu skýringar á mikilli veltuaukningu eru innkoma fráveitureksturs og aukning á orkuframleiðslu til stóriðju.

Hagnaður fyrirtækisins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, EBITDA, var 8.536 milljónir króna samanborið við 6.540 milljónir króna árið 2005.

Afskriftir varanlegra rekstrarfjármuna voru 4.573 milljónir króna árið 2006 en 3.237 milljónir króna árið 2005.

Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 9.466 milljónir króna árið 2006, en voru jákvæðir um 1.067 milljónir króna árið 2005.

Heildareignir 31. desember 2006 voru 137.289 milljónir króna en voru 88.039 milljónir króna 31. desember 2005.

Eigið fé 31. desember 2006 var 66.671 milljón króna en var 48.298 milljónir í 31. desember 2005.

Heildarskuldir 31. desember 2006 voru 70.618 milljónir króna en voru 39.741 milljón króna 31. desember 2005.

Eiginfjárhlutfall var 48,6% í lok ársins 2006 en var 54,9% í lok 2005.

Ný lög um skattskyldu orkufyrirtækja

Með nýjum lögum nr. 50/2005 um skattskyldu orkufyrirtækja verður fyrirtækið skattskylt í samræmi við 2. gr. Laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Lögin koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2007 vegna tekna á árinu 2006. Sá hluti starfsemi OR er lýtur að rekstri vatnsveitu og fráveitu verður þó áfram undanskilinn tekjuskatti. Reiknuð tekjuskattsinneign á árinu 2006 nam 3.779 milljónum króna.

Horfur

Langtímaskuldir OR eru að stærstum hluta í erlendri mynt. Gengistap Orkuveitu Reykjavikur af langtímaskuldum nam 8.141 milljónum króna á árinu 2006.

Horfur eru góðar um rekstur Orkuveitu Reykjavíkur á árinu 2007. Umsvif fara vaxandi og fjárfestingar eru miklar. Stærsta einstaka verkefnið er bygging nýrrar virkjunar á Hellisheiði sem mun stórauka eigin orkuvinnslugetu fyrirtækisins. Í ársbyrjun 2007 sameinuðust Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Rangæinga.