Rekstrartap OR á tímabilinu 1. janúar til 30. september 2011 nam 5.344 milljónir króna samanborið við 16.794 milljóna hagnað á sama tímabili 2010 en þá var gengisþróun hagfelldari en í ár að því er segir í tilkynningu OR. Regluleg starfsemi OR  skilaði betri afkomu fyrstu níu mánuði þessa árs en í fyrra og segir í tilkynningu að það megi rekja til aukinna tekna og aðhalds í rekstri. Handbært fé frá rekstrinum hafi numið 14,1 milljarði króna og hækkaði um 4,3 milljarða króna frá sama tímabili 2010.

"Óhagstæð gengisþróun og lækkun álverðs á fyrstu níu mánuðum ársins hafði verulega neikvæð áhrif á fjármagnsliði. Afkomuáhrif fjármagnsliðanna eiflast um 35,6 milljarða króna milli ára. Því var rekstrartap á tímabilinu 1. janúar til 30. september 2011 5.344 milljónir króna samanborið við 16.794 milljóna hagnað á sama tímabili 2010, þegar gengisþróun var hagfelldari en í ár," segir OR.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, segir ánægjulegt hversu velhafi gengið að ná tökum á rekstrinum og skera þar niður kostnað. "Það er lykilatriði í því að Orkuveitan standi við þá aðgerðaáætlun sem gerð var í samstarfi við eigendur í vor. Þróun ytri þátta á borð við álverð og gengi sýnir okkur hinsvegar að fyrirtækið er enn of viðkvæmt fyrir sveiflum af því tagi.“