Orkuveita Reykjavíkur (OR) vann mál gegn ríkinu fyrir Héraðsdómi Suðurlands 27. janúar sl. er varðaði eignarrétt á jarðarpörtum sem OR hafði keypt m.a. af ríkinu.

Var OR afdráttarlaust dæmdur eignarréttur á jörðunum sem ríkið hafði hirt aftur undir þjóðlendur.

OR voru dæmdar tvær milljónir króna í málskostnað en Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, rak mál fyrirtækisins fyrir dómnum.

Forsaga málsins er sú, að við undirbúning nýrra jarðgufuvirkjana á Hengilssvæðinu upp úr aldamótunum keypti Orkuveitan úr jörðunum Ytri-Þurá, Núpum I, II og III, Vatna, Kröggólfsstaða, Þúfu, Litla-Saurbæjar og Stóra-Saurbæjar í sveitarfélaginu Ölfusi.

Líklegt var talið að þar væri jarðhita að finna. Á meðal seljenda var íslenska ríkið og veitti Alþingi heimild fyrir sölunni.

Óbyggðanefnd tók þetta landsvæði til úrskurðar og krafðist ríkið að hinir nýseldu jarðarpartar væru í eigu ríkisins sem þjóðlenda. Óbyggðanefnd féllst á þessa kröfu ríkisins en Orkuveita Reykjavíkur skaut málinu til dómstóla.