Avion Group hefur verið iðið við fjárfestingar það sem af er árinu, að sögn greiningardeildar Glitnis, sem segir einnig að það sé áhugavert að fylgjast með hröðum ytri vexti félagsins.

Fyrir utan umtalsverðar fjárfestingar í flugvélum hefur félagið fjárfest í þremur fyrirtækjum á árinu.

Í febrúar var tilkynnt um kaup á öðru stærsta leiguflugfélagi Frakklands, Star Airlines. Heildartekjur þess á árinu 2005 voru 13 milljarðar króna og EBITDA 142 milljónir króna en reiknað er með talsverðum afkomubata á árinu 2006. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Eimskip, sem tilheyrir Avion Group, keypti síðan í mars 50% í Innovative Holdings en það félag er eitt stærsta fyrirtæki Bretlands á sviði hitastýrðra flutninga. Áætluð velta er 15 milljarðar króna og EBITDA framlegð áætluð 5-6%. Kaupverðið er trúnaðarmál að ósk seljanda.

Þá tilkynnti Avion Group í gær um kaup á bresku ferðaskrifstofunni Kosmar Holidays, sem er fremst í Bretlandi í ferðalögum til Grikklands. Þar með fjölgar ferðaskrifstofum innan Avion úr fimm í sex. Velta Kosmar á síðasta ári nam 10,3 milljörðum króna. Kaupverðið er trúnaðarmál.

Eðlilegt kann að vera að seljendur óski eftir því að halda kaupverði leyndu en fyrir fjárfesta og greiningaraðila er auðveldara að meta fjárfestingar félagsins ef kaupverð er gefið upp, segir greiningardeildin.