*

laugardagur, 29. janúar 2022
Erlent 18. ágúst 2020 09:50

Oracle keppir við Microsoft um TikTok

Oracle er komið í hóp með Microsoft, Twitter og Redmond yfir fyrirtæki sem hafa áhuga á að kaupa samfélagsmiðilinn TikTok.

Ritstjórn
Larry Ellison, annar stofnenda Oracle og stuðningsmaður Donald Trump Bandaríkjaforseta
epa

Tæknifyrirtækið Oracle hefur bæst við hóp fyrirtækja sem sækist eftir því að kaupa samfélagsmiðilinn TikTok, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur heitið að setja lögbann á nema ef bandarískt félag taki yfir það fyrir miðjan nóvember næstkomandi. 

Larry Ellison, annar stofnenda Oracle, hefur átt viðræður við ByteDance, móðurfélag TikTok, og er sagður hafa alvarlega íhugað að kaupa starfsemi samfélagsmiðilsins í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálandi, samkvæmt heimildum Financial Time. Ellison er einn af fáum einstaklingum í Kísildalnum sem styður Trump opinberlega en hann hélt fjáröflunarboð fyrir forsetann í febrúar síðastliðnum.

Oracle hefur verið að vinna með hóp bandarískra fjárfesta, þar á meðal General Atlantic og Sequoia Capital, sem á þegar hlut í ByteDance. 

Microsoft hefur verið leiðandi í kapphlaupinu um TikTok en félagið tilkynnti í byrjun mánaðar að viðræður við ByteDance um yfirtöku á smáforritinu væru hafnar. Í tilkynningunni kom fram að Microsoft hefði áhuga á starfsemi TikTok í Bandaríkjunum, Kanada, Ástralíu og Nýja Sjálandi en FT hefur heimildir um að netrisinn vilji eignast alla starfsemi samfélagsmiðilsins, þar á meðal í Indlandi og Evrópu. 

Twitter hefur einnig spurst fyrir um smáforritið en ByteDance hefur efasemdir um getu bandaríska samfélagsmiðilsins um að fjármagna samninginn. 

The Redmond, fyrirtæki staðsett í Washington, er sagt hafa sérstakan áhuga á að kaupa starfsemi TikTok í Evrópu og Indlandi, þar sem forritið hefur verið bannað af Narendra Modi forsætisráðherra vegna kínversks eignarhalds. 

Stikkorð: Oracle TikTok ByteDance The Redmond