*

laugardagur, 19. september 2020
Erlent 14. september 2020 09:16

Oracle tryggi rekstur TikTok

Móðurfélag TikTok hefur náð samkomulagi við Oracle til að tryggja rekstur þess í Bandaríkjunum, tilboði Microsoft var hafnað.

Ritstjórn
Larry Ellison er stofnandi Oracle.
epa

Tæknifyrirtækið Oracle hefur náð samkomulagi við kínverska fyrirtækið ByteDance, móðurfélag TikTok, til þess að tryggja rekstur samfélagsmiðilsins í Bandaríkjunum. Enn á eftir að fá samþykki yfirvalda fyrir samkomulaginu. Þetta herma heimildir Financial Times.

Tiktok verður ekki selt til Oracle en sem hluti af fyrirkomulaginu verður séð til þess að mæta öllum þeim þjóðaröryggisáhyggjum sem meðal annars Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur líst yfir. Trump hafði áður heitið því að banna samfélagsmiðilinn ef ekkert yrði gert og átti bannið að taka gildi um miðjan nóvember.

 Sjá einnig: Oracle keppir við Microsoft um TikTok

Oracle keppti til að mynda við tölvurisann Microsoft um yfirtöku á TikTok. Microsoft tilkynnti í nótt að samfélagsmiðilinn hefði hafnað tilboðinu þeirra og því yrði ekkert af fyrirhuguðum kaupum þess á starfsemi TikTok.

Sjá einnig: Fá 90 daga til að selja TikTok

Samkomulagið mun þurfa samþykki bandarískra og kínverskra yfirvalda. Trump heldur því fram að TikTok sé ógn við þjóðaröryggi Bandaríkjamanna vegna núverandi eignarhalds. Heimildarmenn WSJ telja að samkomulagið við Oracle fullnægi kröfum forsetans en ekkert hefur komið í ljós hvað það varðar.

Stikkorð: Microsoft Oracle TikTok ByteDance