Fjárfestar á hlutabréfamarkaði er varir um sig og það er ekki ráðlegt að sækja fé á hlutabréfamarkað nú, segja sérfræðingar, en tveimur fyrirtækjum mistókst nýverið að ná settu takmarki í tilraunum til að sækja fé á markað.

Færeyska olíufyrirtækið Atlantic Petroleum, sem skáð er í Kauphöll Íslands, gerði nýlega tilraun til þess að afla 200 milljóna danskra króna (2,55 milljarða íslenskra króna) en tókst einungis að sækja 121 milljón (1,6 milljarða íslenskra króna) til fjárfesta.

Bandaríska líftæknifyrirtækið Cyntellect, sem er að hluta til í eigu íslenskra aðila, dró til baka í síðustu viku umsókn sína til skráningar á nýja iSEC-markaðinn, en fyrirtækinu tókst ekki að safna nægu fjármagni í hlutafjárútboði til fagfjárfesta.

Áætlað var að safna um tíu milljónum Bandaríkjadala, eða í kringum 770 milljónir króna, og sagði Skúli Sveinsson hjá fjármálafyrirtækinu NordVest, sem hafði umsjón með útboðinu, ástæðuna vera erfiðar markaðsaðstæður.

Sérfræðingar á hlutabréfamarkaði segja að nú sé óheppilegur tími til þess að sækja fé á hlutabréfamarkað og telja að fyrirtækjunum hefði tekist að ná settu marki hefðu þau nálgast markaðinn í fyrra, eða jafnvel í byrjun árs. Flestir segja að fjámagn á markaðnum hafi minnkað töluvert og að fjárfestar séu áhættufælnir.

"Bæði fyrirtækin eru óskrifuð blöð," sagði einn viðmælandi Viðskiptablaðsins og bætti við að enn væri nokkuð í að fyrirtækin myndu skila hagnaði. Hann sagði að öðruvísi hefði eflaust farið ef um traust og þekkt félög væri að ræða.

Greiningardeild Kaupþings banka segir að hlutafjárútboð Atlantic hafi ekki farið eins og best var á kosið. Í útboðinu var stefnt á að selja 54.550 til 369.989 hluti að nafnvirði 100 danskar krónur en niðurstaða var að 220.752 hlutir voru skráðir.

Útboðsgengið var 550 krónur á hlut. Niðurstaðan er engu að síður fjórum sinnum betri en lágmarksupphæðin sem stefnt var að. Flestir sérfræðingar eru sammála um að bjarnarmarkaður ríki hér áfram og jafnvel út árið.