Orange Project og Reginn Fasteignafélag hafa undirritað leigusamning um stækkun á rými fyrir starfssemi Orange Project. Fyrirtækið Orange Project miðlar og leigir út skrifstofuhúsnæði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Katrín B. Sverrirsdóttir, framkvæmdastjóri Reginn, telur að með þessum samningi sé Reginn að fara inn á nýjan markað sem allar líkur eru á að muni stækka á komandi árum því skortur hafi verið á svo skipulagðri þjónustu á Íslandi.

Tómas Hilmar Ragnars, framkvæmdastjóri Orange Project, segir að samningurinn komi í beinu framhaldi af þeim jákvæðu viðbrögðum sem fyrirtækið hafi fengið við þjónustu sinni og sveigjanleika. Eftirspurn hafi verið meiri en Tómas hafi búist við í upphafi. „Það var greinilega þörf á heildarlausn sem þessari fyrir fyritæki og einstaklinga þar sem öll þjónusta er uppá 10 og allt undir sama þaki. Við skraddarasaumum lausnir fyrir hvert og eitt fyrirtæki og einstaklinga þannig að fólki líði vel og geti vaxið og dafnað í sínum rekstri. Við bjóðum fyrirtækjum jafnt sem einstaklingum uppá lausnir í húsnæðis- og skrifstofuhaldi ásamt ráðgjöf á sviði markaðsmála, innheimtu og lögfræði. Þetta samstarf gerir okkur kleift að geta boðið upp á hágæða húsnæðislausnir á góðu verði og aðrar heildarlausnir sem ekki hafa verið í boði áður á Íslandi. Einnig sjáum við míkla stækkunarmöguleika í þessu samstarfi við Regin til framtíðar,“ segir Tómas.