*

fimmtudagur, 9. júlí 2020
Innlent 17. nóvember 2019 10:03

Örar breytingar

Á þeim 35 árum sem Svava Johansen, eigandi NTC, hefur starfað innan tískugeirans, hafa miklar breytingar átt sér stað.

Sveinn Ólafur Melsted
Svava Johansen, eigandi NTC.
Eyþór Árnason

Svava hefur starfað hjá og rekið NTC í yfir 35 ár. Sennilega eru fáir geirar sem breytast jafn ótt og títt eins og tískugeirinn, og segir Svava að viðskiptaumhverfið hafi tekið miklu breytingum á tíma hennar í NTC.

„Í upphafi rákum við eina verslun á Laugavegi og ég kem inn í rekstur hennar, eins og áður segir, árið 1981. Við unnum allan sólarhringinn því verslunin var orðin það vinsæl að ástandið var svipað og er með vinsæla skemmtistaði í dag. Hleypt var inn í SAUTJÁN  í hollum, á vissum tímum um helgar. Á þessum tíma máttu afgreiðslufólkið og viðskiptavinir reykja inni í búðinni, en sem betur fer tilheyrir það sögunni. Þá var heldur ekki hægt að styðja sig við nútímatækni eins og debet- og kreditkort og tölvur, heldur þurftum við að nota gömlu góðu sjóðsvélarnar. Svo var auðvitað engin netverslun og engir farsímar til. Fatabransinn hefur því vitanlega þróast samhliða þeim miklu tækniframförum sem hafa átt sér stað. Manni líður smá eins og maður sé 100 ára þegar maður segir frá þessu," segir Svava og hlær. „En í raun er þetta ekkert svo langt síðan. Hlutirnir hafa breyst hratt, en þetta var mjög skemmtilegur tími þar sem nándin við viðskiptavini var mikil. Maður var alltaf á gólfinu að vinna og það var ekki hægt að versla öðruvísi við okkur nema koma inn í verslunina. Laugavegurinn var á þessum tíma aðalverslunarkjarninn.

Mér finnst það einnig hafa breyst að í dag vill fólk í auknum mæli fá ákveðna upplifun þegar það fer í fatabúð og við kappkostum því við að veita viðskiptavinum okkar eins góða upplifun og möguleiki er á. Ég er talsmaður þess að fólk komi í verslanir og fái þessa upplifun, frekar en að verslun fari einungis fram í gegnum netið. Sérstaklega þykir mér mikilvægt að ungt fólk komi og prófi föt, fái ráðgjöf frá fagaðila um hvaða litir, snið o.s.frv. fari því. Ég man t.d. ennþá eftir því hvaða ráðleggingar ég fékk þegar ég fór í fyrsta skiptið ein í fataverslun niðri í bæ. Ég man líka eftir lyktinni og tónlistinni þar inni. Þetta býr til skemmtilegar minningar."

Telur þú að verslun gæti færst alfarið yfir á netið í framtíðinni?

„Nei, ég hef ekki trú á því. Netverslun hefur vissulega aukist mjög mikið undanfarin ár og er gríðarlega mikil. En það er fyndið hvað það fer allt í mikla hringi. Einu sinni versluðu foreldrar okkar fatnað úr vörulista og fengu hann svo sendan í pósti. Svo datt það úr tísku eftir að settar voru upp flottar verslanir hérlendis. Nú er netverslun að tröllríða öllu og maður spyr sig því hvað verður næst?

Netverslun er hentug fyrir þá sem hafa ekki tíma til að fara í verslanir. Við erum öflug á samfélagsmiðlum og erum með netverslunina ntc.is, en hún er ekki eins öflug og við vildum að hún væri. Fólk kemur oft til okkar og sýnir mynd af flíkinni sem það vill kaupa, og hefur þá rekist á mynd af henni á samfélagsmiðlunum okkar. Við erum svo að vinna í að verða öflugri í netverslun og vinnum nú að því að setja upp netverslanir fyrir Gallerí 17, GS SKÓ og GK Reykjavík. Þær netverslanir verða ákveðið tilraunaverkefni og ef vel gengur þá reiknum við með að fleiri verslanir okkar muni í framtíðinni bjóða upp á netverslun.

Það er þó ekki mín ósk að netverslun verði okkar helsta tekjulind, en það er vegna þess að ég hef ástríðu fyrir því að sjá og veita fólki upplifun, þjónustu og ráðgjöf þegar það kemur í verslunina okkar. Það er eitthvað sem ekki er hægt að veita í gegnum netið. Ég er að sjálfsögðu opin fyrir því að selja í gegnum netið, en ég vil ekki að verslanirnar hverfi, því mér þykir mjög vænt um þann hluta starfseminnar og hef ég kynnst ótrúlega mörgu góðu fólki í kringum verslanir okkar," segir Svava

Nánar er rætt við Svövu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 

Stikkorð: NTC Svava Johansen