Óhætt er að segja að mikil Þórðargleði hafi ríkt á sænskum spjallsíðum vegna lækkunar íslensku bankanna. Á spjallsvæði sænska viðskiptablaðsins Dagens Industri má sjá að menn telja sig hafa lengi beðið eftir því að íslenska bankabólan spryngi.

Tóninni í flestum þeim sem taka þátt í spjallinu þar er á sama lund, íslensku bankarnir hafi teygt sig allt of langt og nú sé komið að skuldadögunum. Einn þeirra sem tekur þátt í spjallinu segir að Íslendingar þurfi þó ekki að örvænta, þeir eigi alltaf heita vatnið og fiskinn!

Þátttakendur benda gjarnan á að þetta eigi ekki að þurfa að koma neinum á óvart. Þeir sem kaupi allt á lánum lendi að lokum í vanda, það komi að skuldadögum. "Þeir hafa verslað hlutabréf sem galnir væru og nú er komið að skuldadögunum, það er ekkert óvenjulegt við það," segir einn spjallarinn. Greinilegt er að margir hugsa Kaupþing banka þegjandi þörfina í Svíþjóð og einn gengur svo langt að segja að bankinn sé í sömu stöðu og Framfab fyrirtækið var í netbólunni.

Einn þátttakandi í spjallinu bendir á að það sé ekki einleikið sem yfir norðurlöndin dynur, fyrst hafi Múhameðsmyndirnar gert allt vitlaust í Danmörku, fuglaflensan sé komin til Svíþjóðar og nú sé bankakreppa yfirvofandi á Íslandi. Hann segist því velta fyrir sér hvað gerist í Noregi og Finnlandi.