Þórarinn Friðjónsson, framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar ehf., hefur keypt þriðjungshlut í fyrirtækinu af stofnanda þess, Stefáni Baxter. Jafnframt keypti Industria ehf. 20% hlut í fyrirtækinu af Stefáni. Aðrir hluthafar eru Tryggingamiðstöðin og nokkrir lykilstarfsmenn Hugsmiðjunnar.

Í frétt félagsins kemur fram að undanfarin tvö ár hefur Hugsmiðjan unnið að mjög sérhæfðum verkefnum fyrir Industria sem tengjast stafrænu sjónvarpi. Stefán Baxter hefur leitt það starf en mun nú hefja störf hjá Industria. Stefán mun þó áfram gegna ráðgjafarstörfum hjá Hugsmiðjunni í hlutastarfi. Jafnframt munu þrír starfsmenn Hugsmiðjunnar, sem ráðnir hafa verið sérstaklega í þetta verkefni, skipta um starfsstöð við þetta tækifæri og vinna fyrir Industria. Þessi breyting hefur því ekki áhrif á þjónustu fyrirtækisins á öðrum sviðum.

Þórarinn segir í tilkynningunni að eftir þessar breytingar séu áherslur í starfsemi Hugsmiðjunnar skýrari og starfsmenn muni, eftir sem áður, leggja sig fram um að veita framúrskarandi þjónustu á sviði vefmála fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök. ?Kraftar starfsmanna, sem eru 20, munu nú eingöngu beinast að kjarnastarfsemi fyrirtækisins, sem er uppsetning og þjónusta vegna vefsvæða í Eplica-vefumsjónarkerfinu, sem og ráðgjöf og þjónusta á sviði vefhönnunar, viðmótsforritunar og vefforritunar. Stefán Baxter mun áfram sitja í stjórn Hugsmiðjunnar og vera starfsmönnum og viðskiptavinum fyrirtækisins til ráðgjafar.?