Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 2. sætið á lista sjálfstæðismanna í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þorbjörgu Helgu í dag.

„Metnaður minn er allur í þá átt að halda áfram störfum í þágu Reykvíkinga og það er mér mikil hvatning að geta gert það á þeim góða grunni sem Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, hefur lagt með nýjum vinnubrögðum í stjórn borgarinnar,“ segir Þorbjörg Helga í tilkynningunni.

Þorbjörg Helga hefur verið borgarfulltrúi frá 2006 en hún hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Reykjavíkurborg frá 2002. Hún er formaður leikskólaráðs, stýrði umhverfis- og samgönguráði 2008-2009 og menningar- og ferðamálaráði 2008. Þá situr Þorbjörg í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga og fyrr á kjörtímabilinu sat hún í stjórn Strætó bs.

„Það verður krefjandi verkefni næstu fjögur ár vinna með borgarbúum í að forgangsraða verkefnum því rekstur borgarinnar verður þungur. Ég er tilbúin að vera í forystuhópnum sem tekur þær ákvarðanir,“ segir Þorbjörg Helga.

Þorbjörg Helga er 37 ára og lauk B.A.-prófi í uppeldis- og menntunarfræði við HÍ 1998. Þá lauk hún meistaranámi í námssálarfræði við University of Washington í Seattle 1999.

Hún er gift Hallbirni Karlssyni verkfræðingi og saman eiga þau þrjú börn, tvo stráka 14 og 11 ára og 2 mánaða stúlku.