Fyrstu átta mánuði ársins voru álögð veiðigjöld útgerðarfélaganna samtals 5,2 milljarðar króna. Þar með eru álögð veiðigjöld ársins komin yfir heildarveiðigjöld ársins 2020, sem urðu samtals 4,8 milljarðar króna.

Fiskistofa birti nýverið þessar upplýsingar á vef sínum.

Reiknað er með að veiðigjöldin í ár verði samtals um 7,5 milljarðar, en gjaldið er reiknað út frá afkomu fyrirtækjanna árið 2019. Veiðigjöld ársins 2020 voru reiknuð út frá afkomu ársins 2018.

Brim ehf. greiðir um hálfan milljarð fyrir afla sinn þessa fyrstu átta mánuði ársins, en aðrir stærstu gjaldendur eru Þorbjörn hf. með 282 milljónir króna, Samherji Ísland ehf. með 266 milljónir, FISK-Seafood hf. með 240 milljónir og Vinnslustöðin hf. með 223 milljónir.

Lögum um veiðigjald var breytt árið 2018 þannig að viðmiðunartíminn var færður nær álagningartíma en áður var, og jafnframt ákveðið að gjaldið yrði þriðjungur af reiknaðri afkomu útgerðarinnar, sem einfaldlega er verðmæti aflans að frádregnum kostnaði.

Fiskistofa leggur einnig á gjald vegna fiskeldis. Fyrstu sex mánuði ársins nemur það um 80 milljónum króna, og þar af greiðir Laxar fiskeldi ehf. 25 milljónir, Arctic sea Farm 22 milljónir og Arnarlax 19 milljónir.

Sérstakt gjald var fyrst lagt á fiskeldi í byrjun árs 2020, og fyrsta árið nam það í heild tæplega 55 milljónum króna.