Frá því árið 2014 þangað til nú hefur Keflavíkurflugvöllur hoppað úr 11. sætinu yfir stærstu flugstöðvar Norðurlanda þegar kemur að farþegafjölda en á þessu ári er Leifsstöð komin í fimmta sæti.

Þetta kemur fram í umfjöllun Túrista , en árið 2014 hoppaði flugvöllurinn upp um tvö sæti og fór uppfyrir flugvellina í Billund og Bromma og endaði í níunda sæti í lok þess árs.

Hraðari fjölgun hérlendis

Farþegum hefur haldið áfram að fjölga hraðar hér á landi en á hinum Norðurlöndunum undanfarin ár. Í fyrra fór Leifsstöð fram úr flögstöðvunum í Stavanger og Þrándheimi og var hún þá komin í sjöunda sætið.

Það sem af er þessu ári hefur völlurinn stokkið upp um tvö sæti til viðbótar, því eftir fyrstu níu mánuði þessa árs hafa fleiri farþegar farið um flugstöðina í Keflavík, eða um 5,3 milljónir, heldur en flugvöllinn í Flesland í Bergen og Landvetter í Gautaborg, sem eru með 5 milljónir og 4,5 milljónir farþega.

Eitthvað verður þó í að Keflavíkurflugvöllur komist upp um sæti til viðbótar enda er Vantaa flugvöllur í Helsinki í fjórða sætinu en um þann flugvöll flugu 16 milljónir farþega á síðasta ári.