*

laugardagur, 6. júní 2020
Fólk 17. maí 2020 19:01

Orðinn hörku kolefnisjafnaður

Júlíus Fjeldsted, nýr fjármálastjóri AwareGo, ræktar skóg í frítíma sínum og varð hefð fjölskyldunnar innblástur að verðlaunamynd.

Höskuldur Marselíusarson
Hefð í kringum skógrækt fjölskyldu Júlíusar Fjeldsted varð innblástur fyrir verðlaunamynd á Cannes kvikmyndahátíðinni. „Fátt er betra en að sveifla haka og rækta nýjan skóg.“
Gígja Einarsdóttir

„Ég er ráðinn til að sinna daglegum rekstri svo framkvæmdastjórinn og meðstofnandinn, Ragnar Sigurðsson, fái aukinn tíma og svigrúm til að sinna vöruþróun. Auk þess nýtist reynsla mín úr ráðgjöf því svona félög þurfa ekki einungis að selja vörur heldur líka þjóna hagsmunum fjárfestanna að baki félaginu," segir Júlíus Fjeldsted, nýr fjármálastjóri AwareGo.

„Félagið hefur þróað kennsluefni til að hjálpa starfsmönnum fyrirtækja að varast ýmsar hættur á internetinu, eins og tölvupósta þar sem verið er að biðja fólk um að millifæra peninga. Jafnframt hvernig verja á lykilorð og sinna gagnaöryggi almennt. Félagið þróaði einnig hugbúnað þessu tengdu sem orðið hefur að sjálfstæðu tekjustreymi, því fyrirtæki sjá að þau geta með auðveldum hætti nýtt hann til að halda utan um ýmiss konar aðra kennslu og verkefni."

Júlíus kemur til AwareGo frá félaginu Bing Bang, en þar áður var hann í fjármálaráðgjöf. „Það má segja að síðustu nokkur ár hef ég verið að vinna að því að verða fjármálastjóri. Þó það geti verið mjög spennandi að ná fólki saman um góða samninga, er það mjög leiðinlegt þegar búið er að leggja mikið púður og vinnu í verkefni sem verður ekki af. Það er eins og að lesa 400 blaðsíðna bók en svo þegar þú ert kominn á blaðsíðu 300 þá sé manni sagt að hætta að lesa og maður þurfi ekki að vita hvernig hún endi," segir Júlíus.

„Ég byrjaði hins vegar starfsferilinn á því að banka upp hjá Erni Valdimarssyni þegar hann var ritstjóri Viðskiptablaðsins sem tók sénsinn og réð mig sem blaðamann. Það gekk nú brösuglega fyrstu mánuðina en svo tók ég mig á og held ég hafi orðið ágætur. Eftir að hafa fjallað mikið um einkavæðingu banka og fjarskiptafélaga ákvað ég að fara í mastersnám til Danmerkur og fór svo að vinna hjá Kaupþingi en hætti þar 2007."

Júlíus er giftur Áslaugu Sölku Grétarsdóttur sem starfar hjá Embætti landlæknis, og saman eiga þau þrjú börn, stráka á aldrinum 17 og 13 ára og 9 ára dóttur.

„Ég stunda aðallega almenna útivist eins og hjól og hlaup og svo má kalla mig frístundabónda, en við stundum talsverða skógrækt í kringum bústað fjölskyldunnar. Það er hefð hjá föður mínum og móður að nota skírnarvatnið til að gróðursetja eitt tré fyrir hvern einstakling sem fæðist. Leikstjórinn Terrence Malick, sem vann Gullpálmann fyrir mynd sína Tree of Life með þeim Sean Penn og Brad Pitt, heyrði af þessu og notaði í myndina. Maður er orðinn hörku kolefnisjafnaður enda fátt betra en að sveifla haka og rækta nýjan skóg."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.