Porsche er orðinn verðmætasti bílaframleiðandi Evrópu eftir meira en 10% hækkun á hlutabréfaverði félagsins frá frumútboði þess í lok síðasta mánaðar.

Markaðsvirði Porsche í frumútboðinu, sem lauk 29. september síðastliðinn, var 75 milljarðar evra eða um 10,5 þúsund milljarðar íslenskra króna. Um var að ræða stærsta frumútboð evrópsks fyrirtækis, sé horft til markaðsvirðis.

Útboðsgengi Porsche var 82,5 evrur á hlut en gengi þýska bílaframleiðandans hefur síðan hækkað um 10% og stendur nú í 91 evru. Markaðsvirði Porsche nemur nú ríflega 83 milljörðum evra en til samanburðar er markaðsvirði Volkswagen, fyrrum eiganda Porsche, um 81,5 milljarðar evra.

Þriðji verðmætasti evrópski bílaframleiðandinn er Mercedes-Benz með 55,9 milljarða evra markaðsvirði.