Þórdís Sigurðardóttir hefur verið ráðin forstöðumaður fjárfestinga Baugs Group á Norðurlöndum, Nordic fjárfestinga. Stefnan í Nordic fjárfestingum Baugs Group hf. miðast við þátttöku í smásölu og þjónustufyrirtækjum á neytendamarkaði og fasteignaviðskipti.

Ráðning Þórdísar tekur gildi hinn 1. október næstkomandi, en hún hefur áður starfað sem forstöðumaður MBA-náms við Háskólann í Reykjavík og nú síðast sem ráðgjafi hjá Og Vodafone hf.

Þórdís situr í stjórnum Mosaic, Haga og Merlin, sem öll eru dótturfyrirtæki Baugs Group.

Innlent eignasafn Baugs samanstendur bæði af félögum skráðum í Kauphöll Íslands og óskráðum félögum. Helstu óskráðu eignirnar eru 8 félög sem samtals hafa um 3000 starfsmenn.

Af innlendum fjárfestingum Baugs Group ber helst að nefna Haga hf., verslunarfyrirtæki með starfsemi á Íslandi og í Svíþjóð. Undir Haga fellur rekstur Bónuss, Hagkaupa, 10-11, Útilífs, Zara, Debenhams, Topshop og Dorothy Perkins. Jafnframt á fyrirtækið innkaupafyrirtækið Aðföng og vöruhótelið Hýsingu.

Þá eiga Hagar Skeljung hf., þjónustu- og verslunarfyrirtæki með starfsemi á um 100 stöðum á landinu. Samningar félagsins við alþjóðlegu Shell samsteypuna veitir Skeljungi rétt á notkun Shell vörumerkisins á Íslandi og greiðan aðgang að nýjungum í tækni- og vöruþróun eins stærsta olíufélags heims.

Auk þess hefur verið lögð áhersla á fasteignarekstur með aukinni þátttöku í fasteignafélaginu Stoðum og hins vegar á tækifæri á sviði smásölurekstrar með kaupum á umtalsverðum hlut í Húsasmiðjunni hf.

Baugur Group á hlut í stóran hlut í Allianz á Íslandi, söluumboði fyrir þýska tryggingafélagið Allianz, Norðurljósum fjölmiðlafyrirtæki, Og Vodafone fjarskiptafyrirtæki, Keops A/S og danska vöruhúsinu Illum.

Jafnframt á Baugur Group ráðandi hlut í Magasin Du Nord, dönsku verslanakeðjunni sem er flestum Íslendingum að góðu kunn og rekur 8 deildaskiptar verslanir (dept. stores).

Framkvæmdastjóri Nordic Fjárfestinga er Skarphéðinn Berg Steinarsson.