Þórdís Sigurðardóttir hefur hætt störfum sem framkvæmdastjóri Stoða Invest og hefur verið gerður við hana starfslokasamningur.

Þórdís staðfesti það í samtali við Viðskiptablaðið. Hún gegnir áfram störfum sem stjórnarformaður Teymis sem er helsta eign Stoða Invest.

Kristín Jóhannesdóttir er stjórnarformaður Stoða en ekki náðist í hana við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Jón Ásgeir Jóhannesson gekk úr stjórn Stoða fyrir skömmu en ekki lá fyrir við vinnslu fréttarinnar hverjir fleiri eru í stjórn Stoða. Við endurskipulagningu Baugs á rekstri sínum hér á landi í upphafi árs var rekstrinum skipt á milli Stoða og var Styrkur Invest stofnað utan um aðrar eignir Baugs.

Stoðir átti í þeim félögum sem tengdust fjölmiðlum og tölvurekstri. Af þeim eru Humac og Nyhedsavisen gjaldþrota og Birtingur, útgáfufélag DV, hefur verið selt til Hreins Loftssonar. Sömuleiðis hefur 365, síðar Íslensk fjölmiðlun, verið seld inn í nýtt félag.