Þórdís Sigurðardóttir, forstjóri Stoða Invest, staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að félagið hyggist minnka sinn hlut í útgáfu Nyhedsavisen úr 49% í 15%. Miðað er við að breytingar á eigendahópnum verði tilkynntar innan tíðar.

Morten Lund, athafnamaður og eigandi 51% hlutafjár í Nyhedsavisen, hefur að undanförnu leitað með logandi ljósi að nýjum fjármagni til að tryggja framtíð blaðsins. Í síðustu viku var upplýst að náðst hefði samkomulag við nýjan fjárfesti. Ekki hefur fengist uppgefið hver sá aðili er, en hann mun þó ekki vera íslenskur.

Að sögn danskra fjölmiðla mun umræddur aðili kaupa sig inn í hlut Mortens Lund og saman mun hlutur þeirra aukast úr 51% í 85%. Hlutur Stoða Invest mun að sama skapi þynnast út.

Morten Lund hefur tekið við boltanum

Þegar Þórdís er spurð hvort íslenski eigendurnir séu sáttir við sinn hlut, segir hún: „Það sem mestu máli skiptir er að verkefnið mun halda áfram. Okkar verkefni fólst í því að búa til stærsta blaðið, Morten Lund hefur tekið við boltanum og náð að klára fjármögnunina.“

Þórdís hefur áður sagt í samtali við Viðskiptablaðið að eigendur Stoða hafi frá upphafi lagt 450 milljónir danskra króna í Nyhedsavisen. Skuldabréf upp á 250 milljónir er inni í þeirri tölu. Það bréf kom til strax í upphafi, þegar uppbygging blaðsins var fjármögnuð, að sögn Þórdísar.

Hún segir að íslensku eigendurnir séu bjartsýnir á að þeir peningar náist til baka. „Ég held að við munum ná okkar fjárfestingu til baka áður en yfir lýkur.“

Ef marka má danska fjölmiðla í dag er engan bilbug að finna á útgefendum Nyhedsavisen. Þeir stefna að því að skrá félagið á markað á næsta ári. Það staðfestir Þórdís enn fremur í samtali við Viðskiptablaðið.