Kínverska fjarskiptafyrirtækið Huawei er um þessar mundir að hefja sölu á farsímum sínum hér á Íslandi. Þrátt fyrir að vörumerkið sé ekki þekkt hér á landi eru tengsl fyrirtækisins við íslenskt fjarskiptaumhverfi ef til vill meiri en flestir gera sér grein fyrir. Forstjóri fyrirtækisins í Skandinavíu, Kenneth Fredriksen, segir fyrirtækið ætla sér frekari fjárfestingar á Íslandi á komandi misserum.

Verða komnir í verslanir fyrir jólin

Fredriksen segist gera ráð fyrir því að Huawei-símarnir verði komnir í verslanir fljótlega. „Það er svo bara byrjunin en vörumerkið mun koma til með að verða mun fyrirferðarmeira á íslenskum markaði með tímanum. Huawei hefur starfað með Nova alveg síðan við byrjuðum að bjóða upp á þjónustu okkar innan Evrópu. Nova var fyrsta fyrirtækið sem nýtti sér allsherjar­ þjónustu okkar en við hófum að byggja upp 3G-kerfið hér á landi fyrir um það bil 10 árum og höfum síðan sett á fót 4G kerfi í samstarfi við bæði Nova og Vodafone,“ segir Fredriksen.

Orðrómur um nýtt stýrikerfi sögusagnir

Að undanförnu hafa birst greinar í erlendum viðskiptatímaritum þess efnis að Huawei sé að þróa sitt eigið stýrikerfi fyrir farsíma fyrirtækisins. Kenneth Fredriksen segir það þó aðeins sögusagnir. „Það eru alltaf uppi einhverjar vangaveltur í þessum geira en við erum ekki með neinar áætlanir um þróun á okkar eigin stýrikerfi. Við notumst við Android-kerfið í öllum okkar snjallsímum og áætlanir okkar gera ráð fyrir því að við munum halda því áfram í framtíðinni. Það er ekkert ákveðið með breytingar hvað þetta varðar.“ Fredriksen segir ýmis tækifæri og möguleika fyrir fyrirtæki eins og Huawei þegar litið sé til framtíðar enda sé ljóst að upplýsingatækni komi til með að verða hluti af öllum atvinnugreinum innan tíðar.

„Allt mun á endanum tengjast. Við sjáum því gríðarleg tækifæri í framtíðinni fyrir okkur sem og viðskiptavini okkar. Tækifærin felast að okkar mati í samvinnu við önnur fyrirtæki, en þannig höldum við áfram að vaxa og þróast. Markmið okkar er í raun að stækka kökuna í heild í stað þess að einbeita sér aðeins að því fá stærri sneið af henni, þannig þróumst við áfram og gefum af okkur um leið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.