Í kjölfar frétta í Wall Street Journal í gær um að AT&T myndi lýsa yfir kaupum á Time Warner um helgina hafa hlutabréf í fyrirtækinu hækkað.

Á síðustu tveimur dögum, eða síðan Bloomberg birti fréttir um mögulega yfirtöku eða samstarf, á fimmtudag hafa hlutabréf í Time Warner hækkað um nærri 8% og hafa þau ekki verið hærri í nærri 15 ár.

Á fimmtudag nam hækkunin 5%, en gengi hlutabréfa AT&T hafa lækkað um 3%.

Framleiðandi Game of Thrones

Time Warner er eigandi kvikmyndaframleiðslufyrirtækisins Warner Bros, fréttasjónvarpsstöðvarinnar CNN og kapalsjónvarpsstöðvarinnar HBO sem meðal annars framleiðir Game of Thrones.

AT&T er risafyrirtæki á fjarskiptafyrirtæki og er það metið á 238 milljarða Bandaríkjadali, eða sem nemu rúmum 33 þúsund milljörðum króna. Fyrirtækið hefur stefnt að því að verða sterkt á sviði fjölmiðlunar en á síðasta ári eignaðist fyrirtækið gervihnattasjónvarpsstöðina DirecTV fyrir 48,5 milljarða dali.

Frekari hrina samruna

Hlutabréf í öðrum fjölmiðlafyrirtækjum eins og Discovery, AMC, Netflix og BS hækkuðu einnig því markaðsaðilar virðast spá því að frekari hrina samruna geti átt sér stað.

Forstjóri Time Warner hefur hingað til ekki viljað selja fyrirtækið, en hann hafnaði 80 milljarða dala tilboði frá Twenty-First Century Fox árið 2014.

Ekki einungis fjarskiptaþjónusta

Samningurinn myndi gefa AT&T eignarhlut yfir mörgum efnisframleiðendum en fyrirtækið stefnir að því að skjóta fleiri fótum undir reksturinn en að vera einungis fjarskiptaþjónusta.

Keppinauturinn Verizon stefnur nú þegar að því að kaupa Yahoo en þeir hafa þegar keypt AOL, eiganda Huffington Post.