Ljóst er að mikil taugaspenna einkennir markaðina og ekki þarf mikið til þess að hreyfa þá hvort sem er upp eða niður. Þannig má að sögn sænska viðskiptavefjarins di.se rekja hækkun dagsins á helstu mörkuðum Evrópu til orðróms þess efnis að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, ætluðu að gefa út yfirlýsingu um málefni Grikklands. Það var fréttastofan Reuters sem dreifði þessum orðrómi með vísan til heimilda í frönsku ríkisstjórninni.

„Forsetinn er mjög ákveðinn,“ sagði heimildin og það dugði. Talsmaður forsetans hefur neitað að þessi orðrómur eigi við rök að styðjast en það hefur litlu breytt. Það sem af er degi hefur FTSE100 vísitalan hækkað um 0,9% og DAX vísitalan um 2,42%.