Það er öllum ljóst að verkfallsaðgerðir flugstarfsmanna á undanförnum misserum hafa haft gríðarleg áhrif á ferðaþjónustuna, ekki einungis flugsamgöngur heldur einnig hótelin, bílaleigurnar, veitingastaðina, afþreyinguna og svo framvegis. Þetta segir í ályktun Samtaka ferðaþjónustunnar í tilefni af því að Alþingi kemur saman klukkan þrjú í dag til að ræða frumvarp bann við verkfalli flugvirkja.

Samtök ferðaþjónustunnar segja að margfeldisáhrifin af verkfallinu séu gríðarleg. Í verkfallsaðgerðum til þessa hafi hátt í 160 flugferðum verið aflýst sem hafi haft áhrif á þúsundir farþega. Hafi fjölmörg fyrirtæki í ferðaþjónustu stigið fram og lýst yfir áhyggjum sínum og vonbrigðum með stöðu mála.

„Nú þegar stærsta ferðamannasumar sögunnar er hafið hafa aðgerðir flugvirkja skollið af fullum þunga á ferðaþjónustuna og því er mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem uppi er strax,“ segir í ályktun Samtaka ferðaþjónustunnar.

Samtök ferðaþjónustunnar segja að erlendir söluaðilar hafi fylgst grannt með stöðu mála og hafi nú þegar aflýst ferðum. Óvissa um stöðugleika í samgöngum til og frá landinu hafi áhrif á orðspor og ímynd Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn. Ímynd og orðspor Íslands sé ómetanlegt.

Samtök ferðaþjónustunnar treysta því að frá og með deginum í dag verði þeirri óvissu eytt sem uppi hefur verið, bæði fyrir ferðaþjónustuna og landsmenn alla.