Óvissan drap víða niður fæti í gær. Fulltrúadeild Bandaríkjaþings felldi tillögu Bush forseta um að veita ríkinu heimild til að verja 700 milljörðum Bandaríkjadala af skattfé borgara í að kaupa fasteignatryggð skuldabréf af fjármálastofnunum. Markaðir hrundu við tíðindin og Dow Jones vísitalan féll um 600 punkta. Við þetta bættist að enn einn bandaríski bankinn þurfti á björgun að halda en fregnir bárust um kaup Citigroup á Wachovia og eru viðskiptin gerð með milligöngu yfirvalda.

Fregnir um að bandaríski seðlabankinn hygðist þrefalda verðmæti útboða sinna á skammtímafé gerðu lítt annað en að sannfæra fjárfesta um að ástand mála á fjármálamörkuðum væri enn grafalvarlegt. Frá og með næsta mánuði mun bankinn bjóða út 75 milljarða dala til ríflega þriggja mánaða en upphæðin var áður 25 milljarðar. Einnig var tilkynnt um að úttektarheimildum í fyrirliggjandi gjaldeyrisskiptasamningum við aðra seðlabanka yrðu aukin í 620 milljarða dala, úr 290 milljörðum dala.

Tíðindi á austurvígstöðum

Segja má að meginvíglínan í lánsfjárkreppunni hafi fyrst og fremst verið vestanhafs að undanförnu. Hinsvegar var austurvígstöðin opnuð á ný í Bretlandi og á meginlandi Evrópu um helgina. Þá bárust fréttir af vandræðum þriggja meiriháttar fjármálafyrirtækja og í gær var tilkynnt um þjóðnýtingu breska fasteignalánabankans Bradford & Bingley og evrópska bankans Fortis. Þá bárust einnig fréttir um að þýski bankinn Hypo Real Estate myndi fá 35 milljarða evru lán frá öðrum bönkum og þýska ríkinu til þess að afstýra hruni hans. Örlög þessara banka að undanförnu þykja til marks um hversu erfitt ástand sé á millibankamörkuðum og hversu mikil þurrð sé á lánsfjármörkuðum.

______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .