Ellefu dögum eftir að Alþingi samþykkti heimild til að endurlána Íslandspósti ohf. (ÍSP) allt að 1,5 milljarða króna sendu Endurlán ríkissjóðs fyrirtækinu tilkynningu um veðkall þar sem hlutfall skulda og trygginga var ófullnægjandi. Að mati Ríkisábyrgðasjóðs hefur félagið ekki verið rekstrarhæft um nokkurt skeið.

Á fundi stjórnar ÍSP 27. ágúst í fyrra kynnti þáverandi forstjóri ÍSP, Ingimundur Sigurpálsson, niðurstöðu vinnu með Landsbankanum. Stefnt var að því að bæta vaxtakjör eldri lána, breyta yfirdráttarlánum í langtímalán og taka nýtt yfirdráttarlán til að fjármagna daglegan rekstur. Að endingu átti að taka framkvæmdalán vegna byggingar nýs pósthúss á Selfossi og viðbyggingar við flutningamiðstöð fyrirtækisins að Stórhöfða.

Í fundargerðinni, sem Viðskiptablaðið fékk aðgang að í krafti upplýsingalaga, hefur upphæð lánsins verið afmáð. Þó hefur komið fram að viðbyggingin við flutningamiðstöðina kostaði um 700 milljónir króna. Fundargerðirnar bera þó með sér að framkvæmdastjórn fyrirtækisins hafði upprunalega viljað byggja við fyrir allt að 2,2 milljarða króna.

Veðrými uppurið

Í krafti sömu laga fékk blaðið aðgang að tveimur minnisblöðum Ríkisábyrgðasjóðs vegna lánveitinga til félagsins. Í því síðara, dagsettu 4. mars 2019, kemur fram að „Landsbankinn hf. [sé] með veð í öllum helstu fasteignum félagsins. Um er að ræða veðsetning u að fjárhæð tæplega 2,9 ma.kr. á meðan fasteignamat viðkomandi eigna er 2 ma.kr.“

Í raun er langt síðan veðrými Póstsins tæmdist. Í fundargerðum frá haustmánuðum 2015 er haft eftir forstjóra að búið sé að ráðstafa meginhluta fasteignaveða og veðrými sé helst að finna í viðskiptakröfum og birgðum. Í viðtali við Viðskiptablaðið í júlí 2015 var haft eftir Helgu Sigríði Böðvarsdóttur, fjármálastjóra ÍSP, að það væri ekkert leyndarmál að tapreksturinn væri fjármagnaður með yfirdráttarlánum og að sú staða hefði verið uppi tæp þrjú ár.

Í fundargerð í janúar 2016 kemur fram að félagið hafi fengið 500 milljóna yfirdrátt í árslok 2015 og var handbært fé í árslok því 419 milljónir króna. Á þeim árstíma eru sjóðir ÍSP vanalega digrastir enda jólavertíðin nýafstaðin.

Óttuðust víxlverkun

Síðasta haust lokaði Landsbankinn á frekari lánveitingar til ÍSP og leituðu stjórnendur á náðir eiganda. Félagið fékk 500 milljónir að láni en kröfur þess á erlendar póstþjónustur, að andvirði 850 milljóna, voru settar að veði. Þá var það skilyrði að virði veðsins yrði aldrei lægra en 140% af lánsfjárhæðinni. Lánið bar 6,2% vexti og á að vera að fullu greitt 16. september 2019.

Verðmæti krafnanna fór í tvígang niður fyrir fyrrgreint hlutfall, annars vegar 18. desember 2018 og á ný 15. febrúar 2019. Í bæði skiptin sendi Endurlán ríkissjóðs veðkall til ÍSP og var veittur mánaðarfrestur til að hækka veðþekjuna. Til greina kom að gjaldfella lánið þá þegar en ekki var gripið til þess vegna ótta um að víxlvanefndaákvæði í samningum við Landsbankann myndu virkjast.