Taugatrekktur verðbréfamiðlari hjá Fubon Securities Co., sem er eitt af stærri fjármálafyrirtækjum Taívans, setti inn fyrir slysni sem svarar 15 milljarða kr. kauppöntun í safn hlutabréfa fyrir hönd erlends fjárfestis. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu en verðbréfamiðlarinn mun hafa verið nýr starfsmaður og þekkti ekki kerfin sem félagið notar. Hann hafði ætlað að setja inn öllu hóflegri pöntun en ruglaðist á reitum í stressi sínu með framangreindum afleiðingum. Kaupin urðu til þess að hreyfa taívönsku vísitöluna Taiex um 1%. Þessi gamansaga er sögð í Hálffimm fréttum KB banka.

Til gamans má geta að þetta væri líkt og að íslenskur miðlari myndi kaupa Marel hf. í heild sinni fyrir slysni. Í fréttatilkynningunni frá Fubon Securities sagði jafnframt að miðlarinn hafi lokið störfum sínum hjá félaginu.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.