Það er þörf á aðgerðum stjórnvalda um allan heim til að bregðast við lánsfjárkreppu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, samkvæmt Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF), sem hefur varað við því að umrótið á mörkuðum muni hafa verulegar afleiðingar fyrir hagvöxt í alþjóðahagkerfinu.

Í viðtali við breska viðskiptablaðið Financial Times segir Strauss-Kahn að „þörfin á stjórnvaldsgerðum sé að verða enn augljósari".

Inngrip stjórnvalda - hvort sem það yrði á verðbréfamörkuðum, húsnæðismarkaði eða bankageiranum - myndi styðja við peninga- og ríkisfjármálastefnuna, að mati Strauss-Kahn.

Yfirlýsing Strauss-Kahn kemur aðeins nokkrum dögum áður en fjármálaráðherrar og seðlabankastjórar helstu iðnríkja heims hittast á vorfundi IMF og Alþjóðabankans í Washington í lok þessarar viku. Á þeim fundi munu ráðamenn ræða lánsfjárkreppuna á fjármálamörkuðum og hugsanlega aðkomu stjórnvalda til lausnar á henni.

Þrátt fyrir jákvæð viðbrögð fjármálamarkaða við orðum Strauss-Kahn eru ekki allir jafn sannfærðir um að rétt sé að grípa til slíkra aðgerða. Matthew Curtin, pistlahöfundur á Dow Jones-fréttaveitunni, segir að það stafi meira hætta - að minnsta kosti til lengri tíma litið - af taugaveikluðum viðbrögðum stjórnmálamanna, heldur en sjálfri lánsfjárkreppunni.

Hann nefnir sérstaklega í því samhengi tillögur Strauss-Kahn sem hann telur að einkennist af óðagoti. Þrátt fyrir að það muni vissulega hægjast á hagvexti í alþjóðahagkerfinu á næstu misserum þá er engin ástæða til að ætla að slíkt muni leiða til einhvers konar skelfingarástands, ef ekki komi til inngripa ríkisins.

Nánar verður fjallað um málið í erlendum fréttum Viðskiptablaðsins á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .