ORF Líftækni hefur hlotið eftirsóttan styrk Grant Management Services of the European Commission að upphæð 2,5 milljón evrur, eða um 400 milljónir íslenskra króna. Um er að ræða rannsóknar- og nýsköpunarstyrk vegna verkefnis ORF Líftækni sem felur í sér þróun,framleiðslu og markaðssetningu á dýra-vaxtaþáttum fyrir svokallaða stofnfrumuræktun á kjöti. Heiti vörulínunnar er MESOkine og yfirskrift verkefnisins  er; „Barley Biofarmed Growth Factors to Make Cell Cultured Meat an Affordable Reality”. Rúmlega tvö þúsund fyrirtæki sóttu um styrkinn en innan við 3% fyrirtækja fá úthlutað.

Styrkurinn, sem nemur um 70% af heildarkostnaði við verkefnið, byggir á umsókn ORF Líftækni í svokallaðan Horizon 2020 sjóðs Evrópska efnahagssvæðisins (EES), nánar tiltekið innan þess hluta sem er ætlaður fyrir rannsókna- og nýsköpunarstyrki fyrir lítil- og meðalstór fyrirtæki (EIC Accelerator pilot –SME Instrument).

Sótt á nýjan heimsmarkað stofnfrumuræktaðs kjöts

ORF Líftækni mun þróa framleiðslu dýra-vaxtaþátta, sem eru náttúruleg efni í dýrum og stýra fjölgun og þroska stofnfruma.  Þessi efni eru nauðsynleg til framleiðslu á stofnfrumuræktuðu kjöti. Í dag eru dýra-vaxtaþættir lang stærstu kostnaðarliðir í framleiðslu á stofnfrumuræktuðu kjöti og nema um 90 % af framleiðslukostnaðinum. Fyrirsjáanlegt er að þessi nýja framleiðslugrein þurfi í framtíðinni gríðarlegt magn af vaxtaþáttum fyrir framleiðslu sína og á margfallt lægra verði en þeir fást á í dag.

ORF Líftækni er hátæknifyrirtæki sem hefur framleitt vaxtaþætti í erfðabreyttu byggi í meira en áratug og hefur öðlast mikla þekkingu og reynslu af slíkri framleiðslu sem styrkveitingin endurspeglar.  Styrkurinn mun gera ORF Líftækni mögulegt að flýta sókn inn á þennan nýja markað með MESOkine vaxtarþáttunum og styðja þannig við framþróun og vöxt nýrrar greinar, en meira en 50 fyrirtæki víðsvegar í heiminum fyrirhuga framleiðslu á stofnfrumuræktuðu kjöti innan örfárra ára.

200 milljónum dýra slátrað til matar á hverjum degi á heimsvísu

Verkefnið byggir á þeirri einstöku tækni sem ORF Líftækni hefur þróað fyrir framleiðslu á vaxtarþáttum fyrir BIOEFFECT vörurnar og fyrir stofnfrumurannsóknir.   Verkefnið miðar að því að geta framleitt dýra-vaxtaþætti í margfalt meira magni og á margfalt lægra verði en önnur fyrirtæki geta boðið. Hér mun reynsla og sérþekking fyrirtækisins á þessu sviði skipta sköpum.

Stofnfrumuræktun á kjöti hefur verið í örri þróun síðan um 2013 er fyrsti nautahamborgarinn var ræktaður á tilraunastofu en á undanförum tveimur árum hafa stórstígar framfarir átt sér stað í þessari tækni. Nú áætla fyrirtæki í greininni að hefja tilraunaframleiðslu á stofnfrumræktuðu kjöti á næstu 2-3 árum.

„Um 200 milljónum dýra er slátrað á hverjum degi í heiminum en engu dýri þarf að slátra fyrir stofnfrumuræktun á kjöti. Stofnfrumuræktun á kjöti er byltingakennd nýjung sem mun breyta matvælaframleiðslu í heiminum og hefur verið kölluð „The next big Foodtech trend“ segir Liv Bergþórsdóttir forstjóri ORF Líftækni. „Fyrir íslenskt fyrirtæki sem þegar hefur skapað sér góðs orðspors á sviði líftækni er það ennfremur mikil viðurkenning að hljóta eftirsóttan og veglegan styrk til að rannsaka og þróa aðferðir sem nýtast við stofnfrumuræktun á kjöti. Það er til mikils að vinna að ná árangri í þessu, í heimi þar sem of mikil kjötneysla- og framleiðsla er vaxandi samfélagslegur- og umhverfislegur vandi. Það eru því krefjandi og spennandi tímar framundan hjá ORF Líftækni sem gefst að auki tækifæri til að taka mikilvægan þátt í jákvæðri byltingu á heimsvísu“.