ORF Líftækni á nú í samningaviðræðum við nokkur stærstu og virtustu snyrtivörufyrirtæki heims sem hafa hug á að nota vaxtaþætti fyrirtækisins til framleiðslu svokallaðra hrukkukrema.

Þetta kemur fram í frétt á vef Samtaka iðnaðarins.

Björn Lárus Örvar framkvæmdastjóri ORF Líftækni segir þar að snyrtivörufyrirtækin sækist fyrst og fremst eftir ímynd græna umhverfisins sem ORF starfi í.

Það sé eina fyrirtækið í heiminum sem noti plöntur en ekki bakteríur eða spendýrafrumur til framleiðslu vaxtaþáttanna. Þar að auki byggi framleiðsla ORF á grænni og endurnýjanlegri orku.

Í fréttinni kemur fram að í byrjun maí á þessu ári tók fyrirtækið nýtt hátæknigróðurhús í notkun í Grindavík. Þar fer fram að mestu sjálfvirk framleiðsla erfðabreytts byggs. Úr því eru unnin sérvirk prótein, eða vaxtaþættir, sem meðal annars eru notuð við lyfjaþróun, rannsóknir og lyfjaframleiðslu.

Björn Lárus segir að fyrirtækið hafi í framleiðslu yfir eitt hundrað mismunandi vaxtaþætti sem upprunalega finnast í manninum.

ORF Líftækni tók því þátt í tveimur stórum sýningum í Amsterdam og New York snemma í vor og viðbrögðin létu ekki á sér standa.  Í framhaldinu hafi fjöldi fyrirtækja sett sig í samband við ORF.

Fyrirtækið framleiðir nú tvær vörulínur af vaxtaþáttum. ISOkine fyrir læknisfræði og lyfjaþróun og BIOeffect fyrir snyrtivöruiðnaðinn. Einingarverð á vaxtaþætti sem vegur einungis tíu milljónustu úr grammi er að meðaltali 30 þúsund krónur í ISOkine línunni. Magnið er meira fyrir snyrtivöruiðnaðinn en einingarverðið eitthvað lægra. Ætla má að gjaldeyristekjur geti orðið verulegar vegna þessa.

ORF Líftækni hf var stofnað í árslok 2000 og nú starfa hjá fyrirtækinu yfir 20 manns. Í ársbyrjun 2007 flutti fyrirtækið í nýjar höfuðstöðvar, í Líftæknihúsið að Keldnaholti, 112 Reykjavík. Þar fer fram öll vinna við tækniþróun og hreinsun fyrstu afurða fyrirtækisins, ISOkine™ . Auk þess starfrækir fyrirtækið gróðurhús að Reykjum í Ölfusi. Vorið 2008 opnaði fyrirtækið fullkomið hátæknigróðurhús, Græna Smiðju , skammt frá Grindavík.