Opnuð hefur verið gestastofa í Grænu smiðju ORF Líftækni í Grindavík og geta ferðamenn og áhugasamir nú skoðað 2.000 fermetra hátækni gróðurhús félagsins þar sem jarðvarmi, íslenskur vikur og íslenskt vatn er notað til þess að rækta byggplöntur.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá ORF, en Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, opnaði stofuna í gær að viðstöddu fjölmenni.

„Með gestastofunni verður til nýr valkostur fyrir ferðamenn og aðra á svæðinu, bæði til þess að kynna sér vistvænt gróðurhús sem nýtir jarðvarma til framleiðslu og afrakstur íslensks hugvits og nýsköpunar. Við erum virkilega stolt af Grænu smiðjunni og hlökkum til að kynna hana frekar fyrir bæði erlendum ferðamönnum og Íslendingum,“ segir Frosti Ólafsson, forstjóri ORF Líftækni í tilkynningunni.